Verðmæti

Suma hluti er ekki hægt að meta til fjár. Þegar fólk er beðið um að segja hvað er verðmætast í lífi þess þá er oft erfitt að segja til um verðgildi þess sem nefnt er. Til dæmis er illmögulegt að setja verðmiða á fjölskylduna sína eða góða heilsu.

Af hverju er gull verðmætt?
Bandaríski fjárfestirinn Warren Buffett sagði eitt sinn að hann skildi ekki af hverju gull væri verðmætt. „Við gröfum það upp úr jörðinni í Afríku til þess eins að grafa það aftur ofan í jörðina í Bandaríkjunum og borgum svo vopnuðum vörðum fyrir að gæta þess. Ég skil ekki hvað gull gerir sem gerir það svona verðmætt.“
 
Jú, gull er sjaldgæfur málmur og hefur ýmsa verðmæta eiginleika. Það ryðgar ekki og líftími þess er langur. Einnig er auðvelt að móta gull án þess að það eyðileggist. Upphaflega voru það þessir eiginleikar gulls sem gerðu það verðmætt og það var gjarnan notað í mynt um víða veröld. Það var algengt áður fyrr að gjaldmiðlar væru á gullfæti sem þýddi að á bak við alla peninga landsins var jafnmikið magn af gulli. Gull er fyrst og fremst verðmætt vegna þess að fólk hefur samþykkt að það eigi að vera það. Ef þú færð greitt í gulli á Íslandi þá getur þú verið nokkuð viss um að geta selt það fyrir peninga og vörur í öðrum löndum. Gull er viðurkenndur og stöðugur gjaldmiðill samanborið við aðra gjaldmiðla, til dæmis íslensku krónuna.
 
Raunveruleg verðmæti verður hver og einn að meta. Þau þurfa ekki endileg að vera þau sömu fyrir öllum. Ef þú myndir stranda á eyðieyju, hvort myndir þú kjósa að hafa með þér körfu fulla af mat, eða körfu fulla af gulli?