Hvað er Fjármálaskólinn?

Fjármálaskólinn er fyrir fyrir alla, en sérstaklega ungt fólk á gagnfræða- og framhalds-skólaaldri sem vill læra um verðmæti, peninga og fjármál. Á þessum aldri byrja flestir að stunda bankaviðskipti, eignast debetkort og hefja eigin sparnað. Margir byrja að vinna í fyrsta sinn og þá er gott að kunna að lesa í launaseðilinn og þekkja réttindi sín. Einnig er gott að gera sér snemma grein fyrir því hvað hlutirnir kosta og hvernig hagkerfið virkar. 

Samkvæmt skýrslu nefndar á vegum Viðskiptaráðherra frá árinu 2009 virðist fjármálalæsi ábótavant meðal almennings á Íslandi. Vandinn einskorðast ekki við Ísland því OECD og Evrópusambandið hafa lýst yfir áhyggjum í svipaða veru. Framboð á fjármálaþjónustu er mun flóknari en áður sem gerir það sífellt erfiðara fyrir neytendur að fylgjast með og afla sér upplýsinga til að taka skynsamlegar ákvarðanir. Sérstaklega er fjármálalæsi ábótavant meðal þeirra sem eru tekjulágir og hafa minnsta menntun. Hrun fjármálakerfisins á Íslandi árið 2008 og óvissa á alþjóðafjármálamörkuðum frá árinu 2007 þykir samkvæmt skýrslunni ekki síst tilkomin fyrir þessar tvær sakir. 

Samkvæmt skýrslunni skilgreinir OECD menntun í fjármálalæsi sem "ferli sem miðar að því að bæta lífskjör neytenda og stuðla að fjármálastöðugleika í landinu. Á fyrsta stigi ferilsins eru neytendur að bæta skilning sinn gegnum hlutlausar upplýsingar og með leiðsögn frá óháðum aðilum um valmöguleika á fjármálaþjónustu, áhættu í fjármálaviðskiptum og hugtök um efnahags- og fjármál. Á öðru stigi eru neytendur að þróa með sér hæfni og öryggi til þess að vera meðvitaðri um áhættu í fjármálum og taka upplýstar ákvarðanir. Á þriðja og síðasta stigi læra neytendur að þekkja tækifærin til þess að auka hagsæld sína og hvar sé að finna hlutlausar ráðleggingar um fjármálaviðskipti." *

Fjármálaskólinn er afrakstur tveggja ára þróunarvinnu innan Skólavefsins og er ætlað að koma til móts við óskir kennara og foreldra um einfalda fjármálakennslu á mannamáli.

  • Við berum virðingu fyrir börnum og ungu fólki. 
  • Við viljum bjóða upp á efni sem er óháð fjármagni frá auglýsendum og áhrifum sérhagsmunahópa.
  • Við viljum búa til vandað efni.
  • Við gerum hlutina ódýrt og bruðlum ekki. Við notum ódýrar og einfaldar framleiðsluaðferðir og erum opin fyrir tækninýjungum.
  • Við erum opin fyrir samstarfi og bjóðum alla sem vilja vinna með okkur velkomna.
  • Við erum jákvæð og bjartsýn fyrir því að íslensk ungmenni, foreldrar þeirra og samfélag vilji fræðast um fjármál, og nálgast þau á ábyrgan hátt.

Hinar þrjár stoðir Fjármálaskólans eru:

  • Hvað kosta ég? er rúmlega 70 blaðsíðna bók sem kynnir helstu fjármálahugtök á hnitmiðaðan hátt. Hún inniheldur fjölda verkefna og umræðuefni sem eiga að vekja áhuga ungs fólks á fjármálum og hentar því vel til kennslu í lífsleikni í eldri bekkjum grunnskóla og framhaldsskólum.
  • Fjarmalaskolinn.is er vefsíða sem styður við bókina með ítarefni, reiknivélum og myndböndum sem hægt er að nota til kennslu eða svala forvitni þeirra sem vilja kynna sér málin sjálfir. 
  • Fjármálaskólinn býður upp á ítarleg námskeið í fjármálafræðslu í húsakynnum Skólavefsins. Einnig er boðið upp á sérsniðin námskeið fyrir hópa, skóla, fyrirtæki og stofnanir af öllum stærðum og gerðum. 

Á bakvið Fjármálaskólann standa Skólavefurinn og Daði Rafnsson. Skólavefurinn var stofnaður í byrjun árs 2000. Vefurinn hefur vaxið jafnt og þétt frá þeim tíma og er nú stærsti náms- og fræðsluvefur landsins. Á vefnum er að finna vandað efni fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla og fróðleiksfúst fólk á öllum aldri. Nær allir skólar á landinu eru áskrifendur að vefnum, auk þúsunda einstaklinga. Á Skólavefnum vinna u.þ.b. 10 manns, en auk þeirra eru margir sem vinna að einstökum afmörkuðum verkefnum. Jökull Sigurðsson, framkvæmdastjóri er verkefnastjóri Fjármálaskólans hjá Skólavefnum og sér um hönnun og vefmál. 

Daði Rafnsson er verkefnastjóri Fjármálaskólans. Hann er aðalhöfundur og ritstjóri efnis. Daði er markaðfræðingur að mennt frá Barry University í Bandaríkjunum árið 2002 og lýkur jafnframt meistaraprófi í Alþjóðasamskiptum frá Háskóla Íslands árið 2012. Hann starfaði í sölu-og markaðsdeild og þróunardeild Kaupþings árin 2004-2008 og sem sölustjóri Humac, umboðsaðila Apple á Íslandi árið 2008. Daði hefur haldið styttri námskeið í fjármálum ungs fólks hjá fjölda grunnskóla og framhaldsskóla síðan árið 2005. Daði lauk UEFA A þjálfaragráðu árið 2009 og hefur starfað sem knattspyrnuþjálfari barna og unglinga hjá Haukum og Breiðabliki síðan 2002. 

* Fjármálalæsi á Íslandi - Skýrsla nefndar á vegum Viðskiptaráðherra. Febrúar, 2009.