Hvað viltu vita?

Það mun gagnast þér vel að byrja snemma að velta því fyrir þér hvað þú kostar, ef svo má segja. Þú og foreldrar þínir eyðið peningum í að fæða þig og klæða, í húsaskjól, nám, skemmtanir, tómstundir og sitthvað fleira.

Einhvern veginn þarf að búa þessa peninga til, annað hvort með vinnuframlagi þínu eða foreldra þinna. Fjármál þín takmarkast þess utan ekki aðeins við fjölskyldu þína heldur borgum við öll einnig skatta til að greiða fyrir þá hluti sem við notum sameiginlega í þjóðfélaginu, eins og skóla, vegi, heilbrigðisþjónustu, lögreglu, slökkvilið og margt fleira.  Að kunna að fara með peninga er dýrmæt þekking. Það getur jafnframt verið erfitt að glíma við fjárhagsvanda en með ábyrgð og skynsemi í peningamálum má sigrast á margri hindrun.

Ekki vera hrædd(ur) við að læra um peninga, bankaviðskipti og fjármál. Þetta hefur allt mikil áhrif á líf okkar og er í rauninni einfalt ef þú nálgast það á jákvæðan hátt. Ef þú hugsar á ábyrgan hátt um fjármál frá unga aldri getur það haft mikil og jákvæð áhrif á líf þitt.  Hér til hliðar má nálgast útskýringar á fjármálahugtökum sem eru kynnt til sögunnar í bókinni okkar, Hvað kosta ég?  Því betur sem þú kynnir þér málin, því betri ákvarðanir átt þú að vera fær um að taka í fjármálum.