Skattar

 

Skattar eru gjöld sem við borgum til samfélagsins fyrir það sem við notum sameiginlega. Fyrir skattinn okkar reka ríkið og sveitarfélög til dæmis menntakerfið, heilbrigðiskerfið og vegakerfið. Skattar greiða grunnskólagöngu þína og sömuleiðis lækna- og sjúkraþjónustu ef þú veikist eða slasast.
 
Skattar eru jafnframt notaðir til að dreifa tekjum og gæðum samfélagsins eins og stjórnvöld hverju sinni telja réttast. Ef ríkisstjórnin leggur til dæmis áherslu á jöfnuð er líklegra að þeir sem hafi hæstu tekjurnar greiði meira í skatta heldur en þeir sem eru tekjulægri. 
 
Mikil pólitík er bakvið ákvörðun skatta hverju sinni, en hún þarf að taka tillit til aðstæðna, stöðu ríkissjóðs og hver markmið stjórnvalda eru. 
 
Skatturinn sem dreginn er af laununum skiptist í tekjuskatt og útsvar. Við greiðum 37.2% af laununum okkar í skatt*, þar af 24.1% í tekjuskatt sem rennur til ríkisins, en að meðaltali 13.1% í útsvar til sveitarfélagsins sem við búum í. Hjá sumum sveitarfélögum er útsvarið hærra, en lægra hjá öðrum. Persónuafsláttur er dreginn af reiknuðum skatti áður en hann er greiddur.  (Tölur miðast við lægsta skattþrep í ágúst 2011).
 
Persónuafsláttur og skattkort
 
Persónuafslátturinn á að tryggja að þeir sem eru lægstlaunaðir haldi hlutfallslega meira eftir af tekjum sínum. Persónuafslátturinn árið 2011 er 44.205 kr. Það þýðir að þú færð þessa upphæð í afslátt af þeirri upphæð sem þú átt að greiða í skatt; í stað þess að greiða t.d. 50.000 kr. í skatt (ef persónuafsláttar nyti ekki við) greiðir þú 5.795 kr. Þú getur sótt um skattkort sem veitir rétt til persónuafsláttar og þú afhendir það vinnuveitanda þínum. Ef þú ert í tveimur störfum má skipta skattkortinu. Þeir sem eiga lögheimili á Íslandi fá skattkort sent heim í byrjun þess árs sem 16 ára aldri er náð og hægt er að nýta það frá byrjun ársins. Ef skattkortið glatast er einfalt mál að sækja nýtt hjá ríkisskattstjóra.
 
Hægt er að sækja um skattkort rafrænt á www.skattur.is
 
Aðrir skattar
 
Einstaklingar greiða 20% fjármagnstekjuskatt af fjármagnstekjum en þær eru vaxtatekjur, arður, söluhagnaður og leigutekjur. 
 
Undanþegnar eru heildarvaxtatekjur að fjárhæð 100.000 kr. á ári hjá einstaklingum og 30% af tekjum vegna útleigu íbúðarhúsnæðis.
 
Auðlegðarskattur hefur verið settur á tímabundið. Skatturinn er 1,50% af nettóeign yfir 75 milljónum króna hjá einstaklingum en yfir 100 milljónum króna hjá hjónum og sambúðarfólki.
 
Erfðafjárskattur er 10% en ekki er greiddur skattur af fyrstu einni og hálfri milljóninni af dánarbúi.
 
Sumir happdrættisvinningar eru skattlagðir. 
 
Virðisaukaskattur (stundum nefndur vaskur) leggst á vörur og þjónustu og nemur 25,5% af verði sem viðskiptavinir greiða. Á þessu eru nokkrar undantekningar en bækur bera til dæmis 7% virðisaukaskatt.