Fjárræði

 

Þegar þú ert orðin(n) 18 ára ræður þú fjármálum þínum og persónulegum högum. Fram að þeim aldri eru foreldrar eða forráðamenn ábyrgir fyrir fjármálum þínum.
 
Þú mátt ekki skuldbinda þig fjárhagslega fyrir 18 ára aldur, til dæmis með því að taka lán. Bönkum er einnig óheimilt að rukka þig um færslugjöld á debetkortinu þínu.
 
Þegar þú hefur náð 18 ára aldri er ábyrgðin á fjármálum þínum komin í þínar hendur. Með ábyrgð koma skyldur og því er vissara að fara varlega þegar þú tekur fyrstu, sjálfstæðu ákvarðanirnar um þín eigin fjármál. 
 
Sjálfsaflafé og gjafafé

Ófjárráða börn og unglingar mega ráðstafa því fé sem þau hafa unnið sér inn með eigin vinnu eða fengið að gjöf.

 
Lögráðamaður
 
Lögráðamaður fer með forræði barns fram að 18 ára aldri. Yfirleitt er það foreldri eða aðrir sem hafa lögformlegt forræði.  Sýslumenn eru þó yfirlögráðendur í sínum umdæmum og geta haft eftirlit með fjárhaldi lögráðamanna. 
 
Umboðsmaður barna

Ef þú ert undir lögaldri og telur að á þér sé brotið er ráðlegt að leita til Umboðsmanns barna. Hann gætir þess að réttindi barna og unglinga séu virt og hagsmuna þeirra sé gætt. Umboðsmaður barna leiðbeinir þér hvert þú átt að snúa þér til að fá lausn á þínum málum.

 

Umboðsmaður barna
Laugavegi 13, 2. hæð,
Reykjavík
Sími: 552-8999