Vextir eru gjaldið sem borgað er fyrir að fá peninga að láni
Þegar tekið er lán er ávallt gert ráð fyrir að lántaki greiði einhverja vexti og fyrir því eru ákveðnar ástæður. Í fyrsta lagi virka vextir sem hvati fyrir lánveitanda að lána, því upphæðin sem hann fær til baka er hærri en sú sem hann lánaði upphaflega.
Í öðru lagi eru vextir vörn þess sem lánar gegn breytingum á verðgildi peninganna, því ef lánað er til lengri tíma getur verðgildi myntarinnar breyst.
Oft er deilt um það í samfélaginu hvað vextir eigi að vera háir. Það skiptir miklu máli bæði fyrir einstaklinga, heimili og fyrirtæki sem þurfa að taka lán til að starfa eðlilega. Seðlabanki Íslands leggur línurnar með almenna vexti, en bankar og aðrar lánastofnanir ákveða þó hver fyrir sig hvaða vexti þær taka af lánum.
Rétt er líka að gera sér grein fyrir muninum á innláns- og útlánsvöxtum.
Útlánsvextir kallast það þegar lánastofnanir veita einstaklingum og fyrirtækjum lán (þ.e. bankinn lánar þér peninga) en innlánsvextir þegar aðilar leggja peninga í banka (þ.e. þú lánar bankanum peningana þína).
Það er mjög mikilvægt að hægt sé að taka lán á sanngjörnum kjörum, einkum og sér í lagi ef menn ætla í kostnaðarsamar framkvæmdir. Það eru t.a.m. ekki margir sem ráða við að kaupa sér húsnæði án þess að fá lán fyrir því. Sennilega yrðu fá fyrirtæki stofnuð ef ekki væri hægt að fá lán til þess.
Nafnvextir
Nafnvextir eru vaxtaprósentan á láninu eða sparnaðinum þínum eins og getið er um í samningi við þann sem lánar þér peningana.
Ef þú tekur eins árs lán upp á 100.000 kr. á 10% vöxtum þá borgar þú 110.000 kr. til baka, þ.e.a.s. 10.000 kr. í vexti eða gjald fyrir að hafa fengið peningana að láni.
Nafnvextirnir eru þá 10%.
Það sama á við ef þú lánar einhverjum peninga, leggur t.d. 100.000 kr. í sparnað í eitt ár á 10% vöxtum. Þá færð þú 110.000 kr. til baka að ári. Þá ert þú að lána bankanum peningana og vextirnir eru gjaldið sem hann borgar fyrir að hafa fengið þá að láni frá þér.
Það kostar því 10.000 kr. AÐ FÁ 100.000 kr. að láni ef vextirnir eru 10%.
Verðbólga
Það sem við köllum verðbólgu í daglegu tali er þróun á vísitölu neysluverðs. Vísitalan mælir í hverjum mánuði verðbreytingar á ákveðnum vörum og þjónustu. Til einföldunar má kalla hana „vörukörfu“, en í henni eru áætluð ársútgjöld meðalheimilis til kaupa á vöru og þjónustu.
Hagstofan gerir verðkannanir sem ákvarða verðbólguna. Verðbólgan hefur áhrif á „kaupmátt“ þinn. Ef eitthvað kostar 100 krónur og verðbólgan hækkar um 5% á ári þá þarft þú 5% hærri upphæð, eða 105 krónur til að kaupa sömu vöru að ári liðnu.
Raunvextir
Raunvextir = Nafnvextir + verðbólga
Ef þú tekur eins árs lán upp á 100.000 kr. á 10% vöxtum og það er 5% verðbólga þá borgar þú 115.000 kr. til baka, þ.e.a.s. 15.000 kr. í vexti eða gjald fyrir að hafa fengið peningana að láni.
Raunvextirnir eru þá 15% á meðan nafnvextirnir eru 10%.
Það kostar 15.000 kr. að fá 100.000 kr. lánaðar í eitt ár ef nafnvextirnir eru 10% og verðbólga er 5%.
Flest lán eru verðtryggð á Íslandi. Verðtrygging þýðir að sá sem tekur lánið borgar nafnvexti + verðbólguhækkun til baka eins og í dæminu hér að ofan.
Það sama á við ef þú lánar einhverjum peninga, leggur t.d. 100.000 kr. í sparnað í eitt ár á 10% vöxtum og það er 5% verðbólga. Þá færð þú 115.000 kr. til baka að ári. Þá ert þú með verðtryggðan sparnað.
Ef þú átt 100.000 kr. óverðtryggðan sparnað á 10% vöxtum í eitt ár og verðbólgan er 5% þá færð þú aðeins 105.000 kr. tilbaka að ári.