Bankaviðskipti

 

Fyrstu bankaviðskipti flestra einstaklinga eru sparnaðareikningar sem skyldmenni þeirra stofna til að safna fyrir framtíðina. Þessir reikningar eru yfirleitt lokaðir til 18 ára aldurs og koma sér þá vel til bifreiðakaupa, íbúðarkaupa eða til að fjármagna nám.
 
Þegar komið er fram á unglingsárin er hægt að fá debetkort í eigin nafni. Við átján ára sjálfræðisaldur opnast svo heill heimur af möguleikum í bankaviðskiptum.
 
Átján ára einstaklingar eru fjárráða og geta fengið kort, yfirdráttarlán, bílalán og svo framvegis. 
 
Sparnaðarreikningar
Fyrsti sparnaðarreikningurinn er yfirleitt tengdur skírnargjöfum, jólagjöfum, afmælisgjöfum og fermingargjöfum og er bundinn til 18 ára aldurs. Kosturinn við slíkann reikning er að hann er verðtryggður og ekki er hægt að taka út af honum sem getur verið kostur og galli eftir því hvernig stendur á. 
 
Sparnaðarreikningar geta verið bundnir um ákveðinn tíma og þá getur þú ekki nálgast peninginn fyrr en að þeim tíma liðnum. Aðrir reikningar eru alltaf opnir. 
 
Munur er á verðtryggðum og óverðtryggðum reikningum að því leiti að verðmæti peninganna er öruggara inni á þeim fyrrnefndu. Þeir eru hins vegar alltaf bundnir til þriggja ára. 
 
Sumir sparnaðarreikningar greiða út vexti í hverjum mánuði, aðrir gera það einu sinni á ári. 
 
Debetkort
Debetkort eru greiðslukort sem þú getur notað til að taka út peninga sem þú átt inni á debetkortareikningnum. Debetkort eru þægileg að því leyti að þú þarft ekki að ganga um með stórar fjárhæðir sem gætu tapast. Einnig ertu alltaf með aðgang að bankareikningnum þínum án þess að þurfa að fara í bankann. Bankinn greiðir þér vexti fyrir þá peninga sem þú átt inni á kortinu, en oftast ekki jafn háa vexti og á sparireikningum. Það borgar sig að skoða vel hversu háa upphæð æskilegt er að hafa á debetkortareikningnum og hversu háa upphæð inni á sparireikningi. Ágætis regla er að vera með nóg til daglegra nota inni á debetkortinu, en afganginn á sparireikningum sem bera hærri vexti. 
 
FIT-greiðslur
Þegar þú notar debetkortið þitt til að greiða fyrir vörur og þjónustu hringir posinn í versluninni til að athuga hvort þú hafir heimild fyrir útgjöldunum. Ef þú átt nægan pening á reikningnum eru kaupin samþykkt og greiðslan fer fram. Hins vegar hringja sumir posar bara stundum, til að fækka innhringingum og minnka álag á kerfið, og treysta því að viðskiptavinurinn viti hvað hann eigi inni á kortinu. Ef inneign er ekki næg og posinn hringir ekki þá tekur verslunin kannski út pening sem ekki er heimild fyrir og viðskiptavinurinn verður að borga hátt gjald fyrir. Þetta gjald kallast FITkostnaður.
 
Yfirdráttur
Þeir sem eru orðnir lögráða eiga möguleika á að fá yfirdráttarheimild hjá bankanum sínum. Þá getur þú tekið út peningaupphæð umfram þá sem þú átt á reikningnum. Yfirdráttur er í stuttu máli lán á mjög háum vöxtum sem ætti aðeins að nota í neyð. Það er auðvelt að hugsa sem svo að yfirdráttarheimild sé peningar í hendi en í raun er hún peningar sem einhver annar á (þ.e. bankinn) og það er dýrt að fá þá að láni.
 
Kreditkort
Kreditkort eru greiðslukort sem þú notar til að taka út pening sem bankinn þinn er tilbúinn að leyfa þér að fá að láni. Athugaðu að upphæðin sem þú tekur út af kreditkortinu er lán sem ber háa vexti ef þú þarft að greiða það yfir lengri tíma. Því er um að gera að leita sér að korti sem er með hagstæðustu vextina. Einnig þarf að greiða árgjald fyrir kortið. Sum kort veita fríðindi og innihalda ferðatryggingar og því getur verið hagstætt að greiða fyrir ferðalög með þeim.
Það getur borgað sig að kanna vel hvað er innifalið í þeim kreditkortum sem þér standa til boða og hvað þau kosta. Þú þarft að geta greitt reikninginn um hver mánaðamót og því er vissara að eiga fyrir honum.
Plúskort
Kreditkort er mjög hentugt að nota þegar verslað er á netinu. Einnig eru innifaldar ferðatryggingar og oft er það ástæðan fyrir því að ungt fólk fær sér kreditkort áður en það kaupir sér ferð til útlanda. Það er til leið til að forðast skuldasöfnun og það er að fá sér fyrirframgreitt kreditkort, svokallað plúskort.
Þá leggur þú inn á plúskortið þá upphæð sem þú ætlar að versla fyrir og getur ekki verslað umfram hana. Ekki eru tekin færslugjöld af plúskortum, einungis árgjald. Þau eru því að mörgu leyti hagstæðustu kortin, sérstaklega ef þú kaupir utanlandsferð eða flugfargjald og ert með tryggingar innifaldar. Plúskort er sniðugt sem fyrsta kreditkortið og ef þú þarft að fara í útskriftarferð eða bakpokaferðalag er betra að nota peninga sem þú átt. Þér liggur ekkert á að safna skuldum.
 
Veltukort
Veltukort er öðruvísi tegund kreditkorta sem leyfir sveigjanlegri greiðslur á reikningnum. Þú borgar alltaf að lágmarki 5% af upphæðinni sem þú skuldar. En á meðan þú greiðir ekki umfram það leggjast háir vextir ofan á upphæðina í hverjum mánuði.
 
Vildarkerfi
Flestir bankar bjóða upp á vildarkerfi fyrir viðskiptavini sína. Flest ganga þau út á að veita afslætti til þeirra sem eru með margar vörur (sparireikning, debetkort, lán, kreditkort, lífeyrissparnað) hjá bankanum. Flest kreditkort eru tengd einhverjum vildarkerfum. Til dæmis getur viðkomandi safnað punktum hjá flugfélögum, aukakrónum eða einhverju sambærilegu.
 
Hafa ber í huga að þú ert ekki að fá neitt gefins, heldur greiðir þú fyrir þessi fríðindi með viðskiptum þínum. Því skipta vildarkerfi miklu minna máli heldur en vextirnir, árgjaldið og tryggingarnar.
 
Greiðsludreifing
Eftir því sem þú verður eldri safnast í sarpinn reikningar sem þú þarft að greiða. Suma greiðir þú mánaðarlega, aðrir koma sjaldnar, jafnvel einu sinni á ári. Íbúðarlán, kostnaður við að reka bifreið, símareikningur, hiti og rafmagn, tryggingar, námslán o.s.frv.
 
Bankar og fyrirtæki bjóða mörg hver upp á greiðsludreifingu. Þá er stórri greiðslu dreift yfir ákveðið tímabil og í stað þess að borga alla upphæðina í einu skiptir þú henni upp í nokkrar greiðslur. Ef reikningurinn fyrir bifreiðatryggingunum þínum er 120.000 kr. á ári, þá getur þú valið um að greiða hann allan strax, eða 10.000 krónur + vexti á mánuði. Hægt er að stofna sérstakan greiðsludreifingarreikning í banka og greiða inn á hann mánaðarlega eða greiða með kreditkortareikningnum sínum.