Verðbólga

Það sem við köllum verðbólgu í daglegu tali er þróun á vísitölu neysluverðs. Vísitalan mælir í hverjum mánuði verðbreytingar á ákveðnum vörum og þjónustu. Til einföldunar má kalla hana „vörukörfu“, en í henni eru áætluð ársútgjöld meðalheimilis til kaupa á vöru og þjónustu. 

Hagstofan gerir verðkannanir sem ákvarða verðbólguna. Verðbólgan hefur áhrif á „kaupmátt“ þinn. Ef eitthvað kostar 100 krónur og verðbólgan hækkar um 5% á ári þá þarft þú 5% hærri upphæð, eða 105 krónur til að kaupa sömu vöru að ári liðnu. 
 
Verðhjöðnun
Alveg eins og verð getur hækkað og „bólgnað” getur einnig orðið verðhjöðnun en það er ef verð lækkar og verðbólga yfir árstímabil er undir 0%. Ef eitthvað kostar 100 krónur og það verður verðhjöðnun um 5% á ári þá þarft þú aðeins 95% af upphæðinni, eða 95 krónur til að kaupa sömu vöru að ári liðnu og átt að auki 5 krónur til að eyða í annað.
 
Kaupmáttur
Ef tekjur þínar standa í stað þá hefur kaupmáttur þinn minnkað um 5%, það er að segja þú getur keypt 5% minna fyrir tekjurnar þínar en fyrir ári. Kaupmáttur launa segir einfaldlega til um hversu mikið af vörum og þjónustu þú getur fengið fyrir launin þín. Ef kaupmátturinn eykst getur þú keypt meira, en ef hann lækkar þá þarft þú hærri laun til að geta keypt það sama og þú gast áður.
 
Verð á hlutum hækkar af ýmsum ástæðum. Fyrirtæki selja vörur og þjónustu og ef kostnaður eykst hækkar verðið. Kostnaður getur verið laun, hráefni, opinber gjöld og fleira. Hins vegar má verðbólgan ekki aukast svo hratt að fólk hætti að hafa efni á hlutum eins og bíómiðum eða gosdrykkjum eða mat og húsnæði. Þess vegna reynir Seðlabankinn að hafa stjórn á verðbólgunni, svo fólk geti keypt í matinn borgað fyrir húsnæði sitt og keypt á sig föt.
 
Að éta upp sparifé
Oft er talað um að verðbólga „éti upp“ sparifé eða að peningar „fuðri upp“ í henni. 
• Ef verðbólgan væri 15% og þú ættir sparnað á 10% vöxtum þá þýðir það að þú fengir aðeins 95.000 kr. til baka. Það er ekki góð ávöxtun á 100.000 kr.
• Þá hefði kannski verið betra að eyða peningunum og kaupa eitthvað
nothæft fyrir einu ári en að láta verðbólguna „éta“ frá þér 5.000 krónur sem þú hefðir getað notað í eitthvað annað