Launaseðill – Vinna

Að fá fyrsta launaseðilinn er ein af stærstu stundum lífsins. En kanntu að lesa af honum?

Yfirvinna
Yfirvinna er sú vinna sem er unnin utan og umfram hefðbundinn dagvinnutíma. Það sem telst til yfirvinnu getur verið mismunandi eftir störfum og því er mikilvægt að spyrja um og gera sér grein fyrir réttindum sínum þegar maður hefur störf.
 
Skattar
Skatturinn sem dreginn er af laununum skiptist í tekjuskatt og útsvar. Við greiðum 37.2% af laununum okkar í skatt*, þar af 24.1% í tekjuskatt semrennur til ríkisins, en að meðaltali 13.1% í útsvar til sveitarfélagsins sem við búum í. Hjá sumum sveitarfélögum er útsvarið hærra, en lægra hjá öðrum.
 
Persónuafsláttur
Persónuafsláttur að upphæð 44.205 kr. er dreginn af reiknuðum skatti áður en hann er greiddur. Persónuafslátturinn á að tryggja að þeir sem eru lægst launaðir haldi hlutfallslega meira eftir af tekjum sínum. (Tölur miðast við lægsta skattþrep í ágúst 2011). Atvinnurekandi á að draga skattinn af launum þínum og skila til ríkisskattstjóra
 
Orlof
Allir launþegar eiga rétt á orlofi sem getur verið annað hvort launað frí eða launalaust. Að lágmarki vinnur launþegi sér inn tvo orlofsdaga fyrir hvern unninn mánuð. Þegar unnin er yfirvinna er orlofið greitt inn á sérstakan orlofsreikning,
sem viðkomandi getur tekið út í maí ár hvert. Skoðaðu vel heimasíðu stéttarfélags þíns til að komast að því hvaða orlofsréttindi þú hefur. 
 
Lífeyrir
Þeir sem eru 16-70 ára og starfa á vinnumarkaði á Íslandi eru skyldugir til að greiða í lífeyrissjóð og öðlast með því lífeyrisréttindi. Með því að leggja fyrir í lífeyrissjóð tryggir þú þér laun ef þú verður að hætta að vinna vegna örorku eða aldurs. Launþegi og launagreiðandi greiða hvor sinn hluta framlags í lífeyrissjóð og fer hlutfallið eftir kjarasamningum á hverjum tíma. Eins og þú sérð á launaseðlinum er lífeyrissjóðsgjaldið dregið frá laununum áður en skatturinn er reiknaður út, því þú greiðir ekki skatt af þessari upphæð fyrr en hún er tekin út úr sjóðnum.
 
Viðbótarlífeyrissparnaður
Til viðbótar við skyldulífeyrissparnaðinn er hægt að leggja fyrir aukalega í viðbótarlífeyrissparnað. Þú getur ákveðið að setja 2% eða 4% í viðbótarlífeyrissparnað og þá er atvinnurekandinn skyldugur til að bæta 2% við þá upphæð. Þetta er skynsamleg leið þar sem þú ert í raun að fá 2% launahækkun sem þú tekur út ásamt lífeyrinum þínum. Lífeyrissparnaður er dreginn sjálfkrafa af laununum þínum. Hins vegar þarft þú sjálf(ur) að óska eftir viðbótarlífeyrissparnaði. Hann stendur til boða í flestum bönkum og sparisjóðum og er skynsamlegast að gera samanburð á því hvernig þeir sjóðir sem í boði eru hafa staðið sig. Opinberir starfsmenn geta ekki fengið mótframlag frá atvinnurekanda. 
 
Stéttarfélag
Stéttarfélög eru samtök starfsmanna úr ákveðnum starfsstéttum. Þau koma fram fyrir hönd meðlima sinna gagnvart atvinnurekendum og semja um hluti eins og laun, starfsöryggi, frítíma og ýmislegt annað tengt starfinu. Með því að greiða í stéttarfélag vinnur þú þér inn réttindi hjá félaginu. Ef stéttarfélagið semur um launahækkun, hlýtur þú hana sjálfkrafa.
 
Starfsmannasjóður
Í flestum fyrirtækjum gefst starfsmönnum kostur á að borga í starfsmannasjóð. Upphæðirnar geta verið mismunandi, frá 1.000 kr. og upp úr. Fyrir þá peninga heldur starfsmannafélagið skemmtanir, árshátíðir og býður jafnvel upp á fræðslu eða líkamrækt. Þú ræður því sjálf(ur) hvort þú borgar í starfsmannasjóð eða ekki. Ef þú ræður þig aðeins í sumarvinnu eða til skamms tíma er hugsanlegt að það borgi sig ekki.
 
Verktakavinna
Sumum er boðið að vinna sem verktakar og aðrir búa sér til störf, t.d. tónlistarmenn, hönnuðir, iðnaðarmenn með eigin rekstur o.s.frv. Þeir fá greidda þóknun fyrir unnin verk og þurfa sjálfir að standa skil á opinberum gjöldum, s.s. skatti og lífeyrissjóði. Verktakar fá hvorki orlof né desemberuppbót, ekki laun fyrir opinbera frídaga né í veikindum. Þeir eru ekki slysatryggðir, hafa ekki uppsagnarfrest og hafa takmarkaðan rétt til atvinnuleysisbóta. Margir hafa komið illa út úr því að vinna verktakavinnu ef þeir hafa ekki staðið skil á opinberum gjöldum. Það er mikill munur á að vera launamaður eða verktaki.