Vanskil

Ef skuld er ekki greidd á gjalddaga þá er hún komin í vanskil. Ef ekki er gengið frá henni sem fyrst má búast við því að viðkomandi lendi á vanskilaskrá. Þegar nafn manns er komið þangað verður erfiðara um vik að stofna til viðskipta þar sem bankar, símafyrirtæki, tryggingafélög og fleiri athuga hvort þú sért á vanskilaskrá áður en þau samþykkja þig í viðskipti.

Það er því vissara að stofna ekki til skulda sem maður ræður ekki við. Best er að hafa strax samband við þann sem þú skuldar ef þú átt í vandræðum með að greiða. Viðkomandi gæti líklega samþykkt að fá greiðsluna seinna eða að dreifa henni á nokkur skipti. Þannig getur þú haldið þér af vanskilaskrá.
 
Fjárnám 
 
Ef sá sem skuldar greiðir ekki þrátt fyrir að reynt hafi verið að innheimta getur kröfuhafi, eða sá sem hann skuldar sent kröfur til sýslumanns og beðið um fjárnámsaðgerð. 
 
Skuldarinn fær senda greiðsluáskorun sem hann sjálfur eða einhver á heimilinu verður að staðfesta móttöku með undirsskrift. 
 
Ef skuldin hefur ekki verið greidd 15 dögum seinna má fjárnám fara fram.
 
Þá mæta skuldari og kröfuhafi til sýslumanns og skuldari verður að telja fram eignir sem hann getur látið upp í skuldina.
 
Ef hún er samt sem áður ekki greidd getur farið fram nauðungasala í eignum skuldara.
 
Ef hann mætir ekki getur sýslumaður þvingað hann til þess með lögregluvaldi.
 
Ef skuldari á engar eignir til að benda á getur sá sem hann skuldar óskað eftir úrskurð um gjaldþrot skuldara.
 
Þá er skuldarinn kominn á vanskilaskrá með árangurslaust fjárnám í farteskinu.
 
Gjaldþrot
 
Bæði kröfuhafar og skuldarar geta farið fram á að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta og fara þá fyrir Héraðsdóm. Héraðsdómari skipar skiptastjóra þrotabús sem sér um búið. 
 
Hann auglýsir eftir öðrum sem eiga inni skuldir hjá skuldara og skiptir því að lokum milli þeirra eftir sérstökum forgangsreglum. 
 
Skiptastjóri hefur heimild til að rifta samningum og ráðstöfunum þrotamanns 6-24 mánuðum aftur í tímann, það fer eftir tegund ráðstöfunar. 
 
Sá sem er gjaldþrota losnar ekki undan skuldbindingum sínum fyrr en fyrningarfrestur skuldanna er liðinn en hann er yfirleitt frá þeim degi sem skiptalokin áttu sér stað og er 4-10 ár.
 
Ef hann eignast pening upp í skuldirnar áður en þær fyrnast getur hann beðið um að vera tekinn aftur til gjaldþrotaskipta og gengið frá þeim og losnar þá af vanskilaskrá.