Margir gera sér ekki grein fyrir þeim mikla kostnaði sem felst í því að reka bíl.
Að kaupa bíl
Þótt það sé gaman að eiga nýja bíla, er seint hægt að segja að þeir séu góð fjárfesting. Nýr bíll hrapar í verðmætum svo gott sem um leið og hann er keyrður af bílaplaninu og fyrstu 2-3 árin minnkar hann hlutfallslega mest í verði.
Notaðir bílar eru misjafnir en það er um að gera að kanna hvaða tegundir bíla hafa lága bilanatíðni miðað við aðra og hvort þeir séu auðveldir í endursölu.
Að kaupa of dýran bíl á unga aldri hefur fyrir mörgum reynst vera fyrsta skrefið til fjárhagslegra erfiðleika. Sumir tengja ímynd sína við bifreiðina sem þeir aka, en að sjálfsögðu er skynsamlegt er að eiga innistæðu fyrir henni. Helsta gagn bifreiða er að sjálfsögðu að koma fólki örugglega á milli staða. Allt annað er aukaatriði.
Bifreiðar taka til sín stóran hluta af tekjum flestra einstaklinga. Það er undir þér komið að ákveða hversu miklu þú vilt fórna til að eiga dýrari bíl.
Margir kjósa að nota bílalán til að fjármagna bifreiðarkaup en er þó ráðlegt með bíla sem annað að eiga sem mest fyrir þeim sjálf(ur).
Bensín
Í bensíni felast stærstu reglulegu útgjöld bifreiðaeigenda. Bensínverð á það til að sveiflast eftir aðstæðum á mörkuðum og gott er að gera sér grein fyrir því hvaða bensínstöðvar bjóða upp á hagstæðasta verðið. Vefsíðan GSM-bensín er mjög sniðug til þess, en á henni uppfærist verð daglega á flestum bensínstöðvum.
Skoðun
Notaðir bílar þurfa yfirleitt að fara í skoðun einu sinni á ári, en nýir og nýlegir sjaldnar. Það er um að gera að bera saman verð áður en farið er með bílinn í skoðun og athuga hvaða afslætti skoðunarstöðvarnar bjóða upp á. Sumar þeirra senda þér meira að segja tilboð í pósti í mánuðinum sem á að skoða bílinn.
Viðhald
Til viðhalds telst að kaupa reglulega ný dekk, að skipta um dekk á vorin og haustin. Einnig þarf að fara með bílinn í smurningu á fimm til sjö þúsund kílómetra fresti. Olía, rúðuþurkur og rúðuvökvi teljast til reglulegra útgjalda og sömuleiðis þrif og bón. Hægt er að spara sér umtalsverðar upphæðir ef maður lærir að sinna sem mestu viðhaldi sjálf(ur).
Bilanir
Bílar geta bilað hvenær sem er og að fara með þá á verkstæði getur komið illa við budduna, enda oft um óvænt útgjöld að ræða. Þegar þannig er ástatt er um að gera að gera verðkönnun milli verkstæða, eða jafnvel kanna hvort einhver þér nákominn kunni að laga vandamálið. Mikill verðmunur getur verið á varahlutum milli söluaðila. Vert er að kanna áður en maður kaupir bíla, og þá sérstaklega notaða, hvernig bilanatíðnin er í þeim og hvort auðvelt sé að nálgast varahluti í þá.
Tryggingar
Enginn ekur um án trygginga enda er aldrei of varlega farið í umferðinni. Allir verða að hafa skyldutryggingu en hún bætir allt tjón sem verður af völdum bifreiðarinnar, þar á meðal slys sem ökumaður verður fyrir við stjórn hans eða sem farþegi. Kaskótrygging bætir skemmdir á eigin bifreið og aukahlutum. Hana verður að hafa ef bíllinn er á bílaláni eða bílasamning.