Það getur verið gott að spyrja sjálfa(n) sig eftirfarandi spurninga áður en maður kaupir eitthvað:
- Á ég fyrir þessu?
- Þarf ég á þessu að halda? Langar mig í þetta? Af hverju?
- Er eitthvað annað en þetta sem ég vil/þarf frekar?
- Kemst ég af án þessa?
Svör við þessum spurningum geta verið flóknari en virðist í fljótu bragði. Við getum hins vegar notað hugmyndina á bak við þarfapíramída bandaríska sálfræðingsins Abrahams Maslow til að aðstoða okkur í ákvarðanatökunni.
Þarfapíramídinn raðar þörfum manns eftir mikilvægi þeirra og þannig getum við spurt okkur sjálf hversu miklu máli hver innkaup skipta okkur.
Margir þættir hafa áhrif á kauphegðun okkar og það hvað við skilgreinum sem nauðsynjar eða lúxus, til dæmis í hvaða samfélagi við búum, hversu gömul og hversu efnuð við erum.
Ef við gerum okkur betur grein fyrir því hverjar raunverulegar þarfir okkar eru, aukast líkurnar á því að við getum tekið meðvitaðri ákvarðanir þegar við eyðum peningunum okkar.
Þarfapíramídi Maslow's gengur út á að forgangsraða þörfum okkar eftir mikilvægi þeirra.
Mikilvægastar eru grunnþarfirnar en við þurfum jú öll að borða og drekka til að lifa af. Jafnframt þurfum við á hvíld að halda og því að hreyfa okkur og huga að heilsunni á margvíslegan hátt.
Næstar eru öryggisþarfir, en þær getum við til dæmis uppfyllt með húsaskjóli, tryggingum, skammtímasparnaði og lífeyrissparnaði.
Þörfin fyrir félagsskap og ást skiptir okkur miklu máli. Það að umgangast fjölskyldu, maka, börn og vini veitir okkur aukin lífsgæði. Blóm handa mömmu, ferðalag með vinum eða stefnumót með ástinni sinni getur verið góð fjárfesting, sem er nær ómögulegt að meta til fjár.
Þörfin fyrir sjálfsvirðingu og virðingu annarra er næst efst í píramídanum. Verk okkar og gjörðir uppfylla þessar þarfir, en með því að standa okkur vel í leik og starfi, afla okkur menntunar, aðstoða náungann og taka ábyrgð á gjörðum okkar er líklegra að við öðlumst virðingu annarra. Enn mikilvægara er að sjálfsögðu að bera virðingu fyrir sjálfum sér. Að fjárfesta í menntun af ýmsu tagi, góðum bókum eða gefa til góðgerðarmála getur verið hluti af þessu þrepi.
Efsta þrepið snýst um lífsfyllingu og sjálfsbirtingu en hana öðlast sá eða sú sem hefur uppfyllt neðri þrepin og að auki náð að nýta eigin kosti, hæfileika og þroska til fullnustu. Þessu ná því miður ekki allir, oft vegna skorts á tækifærum. Þetta má ekki misskilja þannig að góð máltíð með góðum vinum eða sólarlandaferð með fjölskyldunni sem veitir manni ánægju dugi til að veita lífsfyllingu. Til að öðlast lífsfyllingu þarf að leggja hart að sér til að ná erfiðum markmiðum, en þau geta verið á íþróttasviðinu, sem foreldri eða maki, í listum, stjórnmálum eða atvinnulífinu.
Þegar þú lætur af hendi peninga er óvitlaust að gera sér grein fyrir því hvaða þarfir þú ert að uppfylla.