Hagkerfið

Hagkerfi Íslands er allir þeir peningar sem eru í umferð á Íslandi. Hlutdeild í hagkerfinu eiga einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir sem lifa og hrærast innan þess. Segja má að þú hafir líka þitt eigið hagkerfi sem snýst um tekjur þínar og útgjöld og að sjálfsögðu vilja þeir sem eiga hlutdeild í hagkerfum að það komi meiri peningar inn en fara út. 
 
Þjóðarframleiðsla og hagvöxtur
Þjóðarframleiðsla er heildarverðmæti allrar vöru og þjónustu sem er framleidd af þjóðinni á einu ári. Hagvöxtur mælir hversu hratt þjóðarframleiðsla eykst eða dregst saman. 
 
Kakan
Hagkerfum er stundum líkt við köku. Ef meiri peningar koma inn en fara út þá stækkar kakan og þá er talað um hagvöxt. Ef meiri peningar fara út en koma inn þá minnkar kakan og þá er talað um samdrátt. Því stærri kaka, því meiri hagvöxtur, því meira höfum við til skiptanna og fleiri geta fengið að borða.
 
Þú getur hugsað þetta þannig að ef þú hefur meiri tekjur í ár en í fyrra þá hefur kakan þín stækkað og þú hefur meira að borða (eða eyða og getur leyft þér að eignast meira). Ef þú hefur minni tekjur en í fyrra þá minnkar hún að sjálfsögðu og þú hefur minna að borða (eða eyða og þú getur leyft þér að eignast minna).
 
Helst viljum við að kakan okkar stækki stöðugt en það er nú ekki alltaf þannig. Stundum minnka kökurnar eða stækka mjög hratt. Það er heldur ekki endilega gott þar sem meiri óvissa er um raunveruleg verðmæti í hagkerfinu. Yfirleitt er erfiðara fyrir fólk og fyrirtæki að gera raunhæfar áætlanir varðandi fjárhag sinn þegar þannig er ástatt.
 
Það er nú þannig með hagkerfið eins og flest annað að við viljum hafa jafnvægi á því til að hlutirnir fari ekki úr skorðum. Flest ríki hafa seðlabanka sem er banki fyrir bankana sem við eigum viðskipti við. Seðlabankinn á að gæta þess að kakan stækki (það er að hagvöxtur sé í hagkerfinu) og jafnvægis sé gætt svo kakan stækki hægt og rólega þannig að allir fái hæfilega mikið að borða.