Margvíslegur kostnaður fylgir því að reka heimili. Gerir þú þér grein fyrir því hvað það kostar að eiga sér samastað?
Húsnæðiskaup - Að eiga eða leigja?
Spurningin um hvort það borgi sig að eiga eða leigja húsnæði hefur mikil áhrif á líf flestra. Öll verðum við jú að eiga okkur samastað, en svarið getur verið mismunandi eftir hverjum og einum og utanaðkomandi aðstæðum hverju sinni.
Þeir sem kaupa eigið húsnæði þurfa að huga að eftirfarandi.
- Þeir eiga húsnæðið og bera á því ábyrgð og skyldur.
- Þeir þurfa að sinna viðhaldi og bera kostnað við rekstur húsnæðisins.
- Þeir geta eignast verðmæti í húsnæðinu ef markaðsaðstæður eru hagstæðar en eiga líka á hættu að tapa ef illa stendur á í hagkerfinu.
Þeir sem leigja þurfa að hafa eftirfarandi í huga.
- Þeir eru aðeins bundnir húsnæðinu eins lengi og leigusamningurinn segir til um. Algengur uppsagnafrestur á leigu er sex mánuðir og á þeim tíma þurfa leigjendur að finna sér nýtt húsnæði.
- Þeir bera ekki ábyrgð né kostnað á viðhaldi, en bera að sjálfsögðu ábyrgð á góðri umgengni og verða að bera af því kostnað sé henni ábótavant.
- Þeir eignast hvorki né tapa fjármunum á húsnæðismarkaðinum, en eru háðir því að leiguverð sé hagstætt.
Tryggingar
Allir verða að hafa brunatryggingu sem bætir tjón vegna eldsvoða. Fasteignatrygging tryggir önnur tjón, svo sem vegna leka. Innbústryggingar tryggja vegna þjófnaðar og skemmda á innanstokksmunum og fjölskyldutryggingar tryggja vegna slysa og veikinda.
Hiti, vatn og rafmagn
Kostnaður vegna hita og rafmagns getur verið verulegur í heimilisbókhaldinu. Leigjendur þurfa að kanna áður en þeir semja hvort hiti og rafmagns séu innifalin í uppgefnu leiguverði.
Viðhald
Til viðhalds telst að mála, sjá um garðinn, glugga, þak og hurðir. Skólpleiðslur geta bilað og lekar geta haft mikil áhrif. Í fjölbýli er greitt í sameiginlegan hússjóð til að gæta þess að viðhaldi sé sinnt og að eigendur eigi fyrir því.
Húsgögn og innbú
Við þurfum að eiga rúm til að sofa í og eldhús til að laga mat í. Flestir eiga sjónvarp, tölvur, sófasett og borðstofuborð. Sum húsgögn þarf að endurnýja á nokkurra ára fresti og heimilstæki geta bilað án fyrirvara.
Matur
Matarkostnaður heimila er oft verulegur hluti af heimilisbókhaldinu. Skynsamleg innkaup geta sparað verulegar upphæðir.
Rekstrarvörur
Klósettpappír, handklæði, sápur og snyrtivörur, hreinsiefni, klútar, sópar og margt fleira í svipuðum dúr hjálpa okkur við að halda heimilinu og okkur sjálfum gangandi.