Seðlabankinn

Seðlabanki Íslands á að gæta jafnvægis í hagkerfinu. Hann lánar bönkum peninga sem þeir lána okkur svo við getum keypt okkur heimili, stofnað fyrirtæki og skapað tekjur.

Ef Seðlabankinn telur að of mikið magn af peningum sé í umferð í hagkerfinu, þá hækkar hann vexti á lánum til bankanna. Ef hann telur að of lítið sé af peningum í hagkerfinu þá lækkar hann vextina.
 
Stýrivextir 
Vextir Seðlabankans eru kallaðir stýrivextir, vegna þess að þeir eiga að stýra magni peninga í umferð í hagkerfinu hverju sinni. Seðlabankinn reynir að hafa stjórn á verðbólgu. Ef verð á vörum og þjónustu hækkar óhóflega á skömmum tíma bendir það til þess að of mikið sé af peningum í umferð. Seðlabankinn hækkar þá stýrivextina til að reyna að draga úr því að bankar, fólk og fyrirtæki fái meiri peninga að láni. Því hærri vextir, þeim mun ólíklegra er að fólk vilji taka lán. Ef hið gagnstæða á við, þ.e.a.s. að verð lækkar um of samfara auknu atvinnuleysi, bendir það til þess að of lítið sé af peningum í umferð. Seðlabankinn lækkar þá stýrivextina til að hvetja banka til að lána peninga svo fyrirtæki og fólk geti framkvæmt, vaxið og skapað ný störf. 
 
Frá pjástri til efnahagshruns - Örstutt um sögu Seðlabankans
Fyrsti gjaldmiðill sem ber nafn Íslands var sleginn í Konunglegu myntsláttunni í Kaupmannahöfn árið 1771 og hét hann pjástur (piaster). Undir skjaldamerki eru einnig nöfn Grænlands og Færeyja. Ekki var um opinbera mynt á Íslandi að ræða heldur táknaði nafn landsins stöðu þess í ríkinu en Danir notuðu pjástur helst til viðskipta í Austurlöndum. Hins vegar hét fyrsti bankinn sem var stofnaður var í Danmörku Kúrantbankinn og hóf hann starfsemi árið 1736. Árið 1778 var gefin út konungleg tilskipun að 1 rdl. og 5. rdl. seðlar bankans skyldu verða löggildur gjaldmiðill á Íslandi. Voru þeir einnig gjaldgengir í Danmörku, Noregi og hertogadæmunum. Árið 1813 varð gengishrun í Danmörku sem gerði seðlana því næst sem verðlausa og sama ár var stofnaður Ríkisbanki í Danmörku og hafði hann einkarétt á peningaútgáfu. Ríkisbankadalir voru því lögleiddir á Íslandi 1815. 
 
Landssjóður varð til með stöðulögunum sem voru sett 2. janúar 1871 og skildu að fjárhag Íslands og Danmerkur. Landsjóður varð til og árið 1885 var landstjórn heimilað að gefa út peningaseðla í nafni hans fyrir allt að hálfa milljón króna og lagði það grunninn að Landsbanka Íslands. Í fyrstu seðlaröð hans ári seinna mátti finna fimm, tíu og fimmtíu krónu seðla. Árið 1904 var Íslandsbanki stofnaður og fékk leyfi til útgáfu gulltrygðra seðla til þrjátíu ára. Var bankanum því skylt að greiða nafnverð útgefinna seðla í gulli þar til 1914 þegar bankinn fékk undanþágu sem varði til 1919 og var þá gulltengingin felld niður. Landsbankinn fékk hlutverk Seðlabanka og einkaréttur til útgáfu seðla árið 1927. Upphaflega var ætlast til að þeir yrðu gulltryggðir en aldrei kom til þess þar sem Alþingi lét aldrei verða af lagasetningu í þá veru. Landsbankanum var skipt í tvær einingar, viðskiptabanka og seðlabanka árið 1957 og Seðlabanki Íslands hóf svo starfsemi sína sem sjálfstæð stofnun 7. apríl 1961 og færðist einkarétturinn á útgáfu þangað.
 
Með svonefndum Ólafslögum, nefndum í höfuðið á þáverandi forsætisráðherra Ólafi Jóhannessyni var verðtryggingu fjárskuldbindinga komið á árið 1979. Tilgangur laganna var að ná böndum á verðbólgu sem hafði leikið sparifé landsmanna grátt. Þar urðu í raun til tveir gjaldmiðlar í landinu, verðtryggða íslenska krónan og hin óverðtryggða. Árið 2001 tók Seðlabankinn upp verðbólgumarkmið sem kjölfestu í peningastefnu sinni þar sem bankinn hugðist halda tólf mánaða verðbólgu í kringum 2.5 prósent. 
 
Frá þeim tíma hefur gengið illa að ná því markmiði. Árið 2008 skall mikið efnahagshrun á Íslandi og náði verðbólgan nærri því 22% á ársgrundvelli. Ríkisstjórn Íslands þurfti að leita hjálpar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að styrkja gjaldeyrisvaraforða landsins og Norðmaðurinn Svein Harald Oygard varð fyrsti erlendi Seðlabankastjóri Íslands í hálft ár árið 2009 áður en Már Guðmundsson tók við starfinu.