Markmið

 

Besta leiðin til að ná árangri, í fjármálum sem og öðru, er að setja sér markmið og vinna skipulega í því að ná þeim.
 
Ef þig langar til dæmis í utanlandsferð þá þarft þú að reikna út hvað það tekur þig langan tíma að safna fyrir henni og hverju þú ert tilbúin(n) að fórna í staðinn. Með því að vinna eða fara í fjáröflun gætirðu safnað og sparað. Með því að sleppa því að eyða í óþarfa getur þú safnað meiri peningum. 
 
Til að ná árangri er ekki verra að hafa í huga varðandi markmiðasetningu að góð markmið eru skýr, raunhæf og mælanleg
 
Skýr
Ákveddu í hvað þú ætlar að nota peningana. Ef markmiðið er „bara eitthvað“ þá verður útkoman líka „bara eitthvað“. Ætlar þú að kaupa tölvu, fara í ferðalag eða kaupa nýtt snjóbretti? Ef þú ákveður það þá ertu með skýrt markmið.
 
Raunhæf
Það er óraunhæft hjá flestum námsmönnum að safna sér fyrir nýjum Range Rover á einu ári. Hinsvegar ættu flestir að geta safnað sér fyrir tölvu, iPod, ferðalagi eða notuðum bíl á tiltölulega stuttum tíma. Skrifaðu niður hvað þú ert með í tekjur á mánuði og skrifaðu svo niður hversu mikið þú getur lagt fyrir og hverju þú ert tilbúin(n) að fórna. Þá veistu hvað er raunhæft fyrir þig að eignast á ákveðnum tíma.
 
Mælanleg
Markmið verða að vera mælanleg. Fylgstu með því í hverjum mánuði hvort áætlunin hafi gengið upp. Ef ekki, af hverju? Hvernig breytir það áætluninni þinni? Settu þér markmið um að ná ¼ af upphæðinni, svo helmingnum og loks ¾. Það hjálpar að vita hvar maður er staddur í ferlinu þegar unnið er að tilteknu markmiði.