Gerðu það sjálf(ur). Það borgar sig.

Hægt er að spara sér ýmis konar útgjöld með því að gera hlutina sjálf(ur). Amma tók jú slátur sjálf en keypti það ekki úti í búð og afi fór ekki með bílinn út í bæ til að láta þvo hann heldur gerði það sjálfur. Hvað gætir þú sparað með því að gera einungis þrjá einfalda hluti sjálf(ur)?

  • Þvo bílinn Algengt verð fyrir að láta þvo og bóna fólksbíl er 6.000 krónur skiptið. Ef slíkt er gert einu sinni í mánuði er kostnaðurinn á ári 72.000 krónur. Hægt er að kaupa það sem til þarf fyrir 10.000 krónur eða minna og ráðast í verkið sjálf(ur). Sparnaðurinn yrði 62.000 krónur yfir árið.  
  • Klippa hárið heima Algengt verð fyrir klippingu er 4.000 krónur. Á ári gera það 48.000 krónur ef farið er einu sinni í mánuði, eða 24.000 krónur ef farið er annan hvern mánuð. Hægt er að kaupa hársnyrtigræjur fyrir 10.000 - 12.000 krónur og spara sér þannig umtalsvert fé til lengri tíma. Á netinu má finna mikið af myndböndum sem kenna að klippa og ef illa fer má alltaf nota tækifærið til að draga fram húfurnar sínar. Miðað við tvo í heimili þar sem annar fer í klippingu í hverjum mánuði og hinn annan hvern mánuð er sparnaðurinn 60.000 krónur á ári.  
  • Útbúa nesti frekar en að kaupa hádegismat Ef það kostar þig helmingi minna að útbúa nesti í staðinn fyrir að kaupa hádegismat í skólanum eða vinnunni þá er það fljótt að borga sig. Ef þú eyðir 500 krónum í hádegismat, tuttugu sinnum á mánuði kostar það þig 10.000 krónur, en aðeins 5.000 krónur ef þú tekur upp hnífinn sjálf(ur) og sparar þér sem því munar. Sparnaður á ári er 60.000 krónur.

Heildarsparnaðurinn við þessa þrjá einföldu hluti er 182.000 krónur sem er feykinóg fyrir skemmtilegu ferðalagi eða nýrri fartölvu.