Stutt er síðan svokölluð smálánafyrirtæki skutu upp kollinum á Íslandi, en þau lána einstaklingum tiltölulega smáar upphæðir í stuttan tíma gegn gjaldi. Þar nægir að skrá símanúmer sitt og bankareikning og með einu sms-i má nálgast lán í gegnum símann. Neytendasamtökin hafa varað við starfsemi fyrirtækja af þessu tagi.
Kostnaður við lán af þessu tagi geti numið allt að 600% vöxtum á ársgrundvelli og að markaðssetningu þeirra sé beint að yngri neytendum. Smálán hafa verið harðlega gagnrýnd erlendis, fyrir að stuðla að óþarfa skuldsetningu ungs fólks. Smálánafyrirtækin auglýsa reglulega á útvarpsstöðum sem stíla inn á ungt fólk og unglinga sem hlustendur, til dæmis X-977 og FM957. Auglýsingar þeirra ganga út á lífstíl unga fólksins og ganga út á að eiga peninga handbæra fyrir bíó, tónleikum og skemmtanalífinu. Markpóstur til ungs fólks varar þau við vandræðalegum augnablikum þegar peninga skortir. Ekki gangi að líta illa út í augum félaganna eða hins kynsins.
Þarna er ekki verið að tala um raunverulega neyð, eins og það að eiga ekki mjólk fyrir börnin sín þegar það eru þrír dagar í mánaðarmót. Áherslan er á lán til neyslu. Heimasíður þeirra eru litríkar og einfaldar, gera mikið úr því hversu auðvelt það er að fá lánaðan pening en þeim mun erfiðara er að komast að því hverjir standa á bakvið fyrirtækin. Á Facebook síðum smálánafyrirtækjanna er reglulega verið að gefa bíómiða, miða á tónleika og skemmtanir. Í október 2011 var viðskiptavinum sem líkaði við eina slíka síðu gefinn kostur á að vinna miða á Októberfest, Iceland Airwaves og í bíó. Fjöldi ófjárráða einstaklinga líkaði við þá leiki sem voru í boði. Yngstu siguvegararnir voru nýorðnir átján ára, en dæmi eru um að tólf ára börn hafi tekið þátt.
Íslensk heimili eru meðal þeirra skuldsettustu í heiminum, meðal annars vegna auðvelds aðgengis að lánsfé. Svo virðist sem áframhald verði þar á ef ekki er betur gætt að markaðssetningu lána til unglinga.