Mega unglingar gera samning um viðbótalífeyrissparnað?

Mega unglingar gera samninga um viðbótalífeyrissparnað?

Til viðbótar við skyldulífeyrissparnað sem allir verða að greiða er hægt að leggja fyrir aukalega í viðbótarlífeyrissparnað. Þú getur ákveðið að setja 2% eða 4% í viðbótarlífeyrissparnað og þá er atvinnurekandinn skyldugur til að bæta 2% við þá upphæð. Þetta er skynsamleg leið þar sem þú ert í raun að fá 2% launahækkun sem þú tekur út ásamt lífeyrinum þínum. 

Lífeyrissparnaður er dreginn sjálfkrafa af laununum þínum. Hins vegar þarft þú sjálf(ur) að óska eftir viðbótarlífeyrissparnaði. Hann stendur til boða hjá flestum bönkum og sparisjóðum og er skynsamlegast að gera samanburð á því hvernig þeir sjóðir sem í boði eru hafa staðið sig. 

Unglingar sem eru ekki orðnir fjárráða mega skrifa undir viðbótalífeyrissamninga en gott er að hafa í huga að skrifa ekki undir neitt án þess að ráðfæra sig við foreldra eða forráðamenn fyrst, gera samanburð á þeim kostum sem eru í boði og hafa í huga að ef þeim snýst hugur þá er samningurinn ekki bindandi og þau geta losnað frá honum án vandkvæða. 

Nánar um réttindi ófjárráða á vef Umboðsmanns barna.